Dagskipun þjónustufulltrúa - sönn saga

Það var ansi merkilegt að lesa það í blöðunum fyrir helgi að haft var eftir Pétri Blöndal alþm. að fólk gæti nú sjálfu sér um kennt hvernig komið væri fyrir heimilisbókhaldinu hjá því, fólk hefði verið að slá lán fyrir flatskjám !!! og utanlandsferðum!!!

  Mikið eigum við sauðsvartur almúginn gott að eiga svona kýrskýra þingmenn, þjóðin er í öruggum höndum, eða þannig.

 Þetta leiðir hins vegar hugann að því hvernig standi á því að venjulegt fólk hafi getað fengið lán til kaupa á fasteignum sem kosta 30 - 50 milljónir.

 Ég þekki ein ung hjón sem búa í Breiðholti, hann er iðnaðarmaður og hún er háskólanemi, þau búa í íbúð sem þau eiga ásamt bankanum sínum ( reyndar á bankinn íbúðina einn í dag, þökk sé þessari yndislegu verðtryggingu).

 Í fyrra, 2007, datt þeim í hug að fara að stækka við sig, nema hvað þau fara í bankann sinn til að fá upplýsingar um hvaða gögnum þau þyrftu að framvísa til að komast í gegnum greiðslumat. Þjónustufulltrúinn, afskaplega vingjarnlegur og notalegur, fór með þeim í gegnum það og þegar kom að tekjuliðnum þá sagði þessi elskulegi þjónustufulltrúi að hérna ættu þau að skrá allar þær tekjur sem þau hefðu, hverju nafni sem þær nefndust.

 Þessi ungi vinur minn, sem er ekki bara iðnaðarmaður heldur líka húmoristi, spurði þá í gríni hvort að hann ætti að telja fram svörtu vinnuna líka, hehehehe, haldið þið ekki að þjónustufulltrúinn hafi þá ekki litið upp grafalvarlegur á svip og sagt með alvöruþunga og grínlaust að hér ættu allar tekjur að koma fram, bankinn tæki tillit til allra tekna.

 Sem betur fer skildu þessi ungu hjón alvöru málsins og hættu við að fara í greiðslumat og búa enn í íbúð bankans í Breiðholtinu.

 En mér er spurn, hvað var eiginlega í gangi í bankakerfinu, voru bankamenn farnir að örvænta svo um að geta ekki staðið undir vaxtaloforðum ICESAVE / EDGE reikninga að þeir voru tilbúnir að lána út á hvaða bull pappíra sem þeim bárust í hendur ?, bara svo fremi að þeir gátu fengið einhvern til að ganga í snöru verðtryggingar og okurvaxta.

  Er þetta ekki eitthvað sem þarf að rannsaka ? Það væri fróðlegt ef einhver af  þeim aragrúa þjónustufulltrúum banka sem hafa misst vinnuna færu nú að leka einhverjum upplýsingum um hvað í ósköpunum gekk á í þessu svartafylliríi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband