Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011
Siðlausir kjúklingar, varúð ekki fyrir viðkvæma !
9.1.2011 | 18:27
Fór í Krónuna í dag með henni Hrefnu minni, fékk að keyra kerruna og allt.
Er ég í rólegheitum er að stýra kerrunni inn á milli áhyggjufullra samlanda sé ég að í boði eru kjúklingar frá Þýskalandi og aðeins á 598 kr. stk. Ég hugsaði með mér "hver andskotinn, á nú að fara troða inn á fólk ódýrum mat frá Evrópusambandinu".
Ég rölti yfir að kælinum með hreinræktuðu Íslensku kjúklingunum, nokkuð spenntur " við hljótum nú að geta toppað þetta innflutta dót"og jújú haldið þið ekki að þarna hafi legið útglenntir og spenntir Íslenskir kjúklingar. Mér létti stórum, þarna gat ég enn keypt mér heilan kjúkling á 2197 kr. stk og það alíslenskan, tollalausan og óþreyttan eftir sitt stutta ferðalag í búðina sem var bara frá Mosfellsbæ en ekki suðurhluta Þýskalands þar sem hann hefur eflaust þurft að fara í rútu eða jafnvel lest til að komast á hafnarbakka og komast í skip til Íslands.
Þetta bara gengur ekki lengur að stjórnvöld séu að bjóða fólki upp á þessi ósköp að geta keypt sér ódýran innfluttan mat, hvar er þjóðerniskenndin, þjóðarstoltið og montið yfir því að við getum framleitt hér kjúkling sem er oftast laus við salmonellusmit.
Hvernig verður þetta eiginlega ef við slysumst til að samþykkja inngöngu í Evrópusambandið ?
Má hinn almenni Íslendingur eiga von á þeim hryllingi og þeim hörmungum að geta keypt í matinn fyrir sig og sína fjölskyldu tiltölulega áhyggjulaust, jafnvel án þess að þurfa að hugsa um hækkun á yfirdráttarheimild eða veðsetja húsið sitt meira ? Nei, over my dead body, við verðum að koma vitinu fyrir fólk.
Bara svona smá pæling